UM TINNU

Tinna Gunnlaugsdóttir

Örstutt æfiágrip

Egill kynntist konu sinni, Tinnu Gunnlaugsdóttur ungur, rétt liðlega tvítugur. Þá var hún að hefja leiklistarnám í SÁL skólanum og hann og Valgeir að vinna tónlist fyrir sviðsetningu eldri nemenda í skólanum. Neistinn kviknaði á milli þeirra á jólafagnaði skólans, eða réttara sagt í eftirpartýi eftir dansleikinn og þau hafa fylgst að síðan.

Tinna er dóttir þeirra Gunnlaugs Þórðarsonar lögmanns og Herdísar þorvaldsdóttur, leikkonu. Hún er yngst fjögurra systkina, þeirra Hrafns, Þorvaldar og Snædísar, fædd á Leifsgötunni, en alin upp í Vesturbænum og þar byrjuðu þau Egill búskap sinn, í lítilli kjallaraholu við Dunhaga 19. Nokkru síðar fluttu þau upp á miðhæðina, þá komin með tvo drengi, Ólaf Egil og Gunnlaug og þaðan fluttu þau á Grettisgötuna, þar sem þau bjuggu lengst af í gömlu timburhúsi upp á þrjár hæðir. Þar fæddist dóttirin Ellen Erla.

Tinna starfaði lengst af við Þjóðleikhúsið, þar sem hún var leikkona í tæplega þrjá áratugi og síðan þjóðleikhússtjóri til tíu ár. Hún fékkst einnig talsvert við kvikmyndaleik og hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir kvikmyndaleik sinn, bæði hér heima og erlendis. Tinna og Egill hafa unnið talsvert saman, bæði á leiksviði og í kvikmyndum, auk þess sem þau hafa staðið að kvikmyndaframleiðslu og rekið eigin fyrirtæki sem meðal annars hefur gefið út bækur og hljómplötur. Tinna hefur líka komið að hönnun og búningagerð, hannaði plötuumslag fyrir Þursana og búninga fyrir Kínareisu Stuðmanna eða Strax á sínum tíma.

Tinna hefur líka verið virk í félagsstörfum leikara og verið talsmaður listamanna hér heima og erlendis sem forseti Bandalags íslenskra listamann.

Tinna er með BFA próf í leiklist frá Leiklistarskóla Íslands, síðar Listaháskólanum, MBA í mannauðsstjórnun frá HR, BA próf í sænsku og MA í þýðingafræði frá HÍ.

En það sem hefur komið sér einna best í seinni tíð er pungaprófið, en það má segja að stærsta samstarfsverkefni þeirra Egils og Tinnu séu siglingar, en eftir að þau eignuðust tréskútuna Sjófuglinn árið 2014 hafa þau búið um borð í þrjá til fimm mánuði á ári og meðal annars siglt Norðursjóinn, Keelarskurðinn, Kattegat, Fjónska eyjahafið, Eystrasaltið og þverað Svíþjóð eftir vatnaleiðinni. Mestum tíma hafa þau eytt í sænska Skerjagarðinn og nýlega komu þau sér upp athvarfi þar í litlu sjávarplássi á austurströnd Svíþjóðar, þar sem Sjófuglinn hefur heimahöfn. Heima á Íslandi er fjölskylduhúsinu við Grettisgötu komið í eigu sonar þeirra, Ólafs Egils og konu hans Estherar Talíu, en þau Tinna og Egill eiga sér athvarf í fjölbýlishúsi við Klapparstíginn. Barnabörn, sem eru orðin sex, eru tíðir gestir heima og heiman, á landi og sjó eru stór hluti af gleði þeirra og lífsfyllingu.

hafa samband

Hafa samband