UM MIG
Egill ólafsson
Örstutt æfiágrip
Egill er fjölhæfur, sjálfstætt starfandi, listamaður. Hann hefur unnið á vettvangi tónlistar og leiklistar, jöfnum höndum í nær fimmtíu ár. Egill hefur sem tónskáld samið mikinn fjölda verka, af öllum gerðum, eins og fyrir stúlknakóra, blandaðakóra, karlakóra, einsöngvara, strengjatríó, tréblásaratríó, og tréblásara-kvintetta, lúðrasveitir auk þess sem 600 söngvar með textum eru skráðir hjá Stefi, þar hefur Egill lagt hönd á plóg – ýmisst einn eða í félagi við aðra.
Egill stundaði nám við Tónlistarskóla Reykjavíkur, 1970-76. Þar voru helstu kennarar hans; Engel Lund, Þuríður Pálsdóttir, Þorkell Sigurbjörnsson og Jón Ásgeirsson.
Egill hefur sótt “masterclasses“ hjá eftirfarandi listamönnum; Per Raben (kvikmynda-tónskáldi Fassbinders), Jukka Linkola, Pierre Dörge, Oren Brown og Thorsten Föllinger.
Egill hefur kennsluréttindi í söngtækni sem kennd er við
Jo Estill (fyrrverandi óperusöngkonu).
Egill hefur einnig fengist við ljóðagerð og hafa ljóð eftir hann birst í bókum og blöðum.
Nú í haust 2022, er væntanleg ný ljóðabók hjá Bjarti; ,,sjófuglinn“ eftir Egil.
Það má segja að þetta sé enn ein greinin hvar Egill stekkur alskapaður út úr höfði Seifs.
Um er að ræða ljóðabálk um föður Egils; Ólaf Ásmundsson Egilsson – sem var margfaldur í roðinu og gjarnan nefndur sjófuglinn. Með bókinni mun fylgja skýringatexti yfir ýmis orð og hugtök úr sjómannamáli.
Áður hefur Egill gefið út tvítyngda ljóðabók; ,,kysstu kysstu steininn…“ en bókin er með þýskum þýðingum Claudia Koestler. Kom út á vegur arte ehf 2005
Í febrúar 2023, kemur út ný tvöföld plata Egils; tu duende/el duende, þar kveður við nýjan tón af karíbskum uppruna – en það er tónlist sem lengi var Agli hugstæð – samhliða útgáfu platnanna, hefur Jón Karl Helgason, unnið að samnefndri heimildamynd um tilurð verksins auk þess sem farið verður yfir feril hans undanfarna nær hálfu öld sem liðin er síðan hann kom fyrst fram með Spilverki þjóðanna.
Hér skal þess þó getið að allir þeir sem hafa forkeypt plötuna, fá hana afhenta fyrir áramót 2022-23
Úrvals músík fólk er í liði með Agli á þessari plötu, þar skal fyrst nefna kúbverska söngdívu, Lissy Henández og mann hennar, útsetjarann og gítarleikarann Argimiro Sánchez, Eyþór Gunnarsson, píanó, Peter Axelsson, á bassa og síðast en ekki sístan, Einar Scheving á slagverk. Auk þess leika á plötunni Kjartan Hákonarson, flygel horn og trompet, Sigurður Flosason sax og flautu og Jóel Pálsson sópran sax og bariton sax. Þá koma einnig við sögu strengjaleikararnar; auður hafsteinsdóttir fiðla, gréta guðnadóttir fiðla, og Bryndís Halla á selló.
Ekki er allt upptalið, því þetta er aðeins á hispanol-enska hluta plötunnar, en á þeim íslenska eru auk þeirra sem hér eru taldir; Valdi Kolli, kontrabassi, Björn Thoroddsen, gítar, Kristinn Árnason, klassískan gítar, að ógleymdri söngkonunni, Ellen Kristjánsdóttir sem hér syngur í fyrsta sinn með Agli og Egill með henni. Hér eru ekki allir nefndir sem koma við sögu.
Þá má geta þess að í fyrsta sinn, starfa þeir Ólafssynirnir, Kristinn R Ólafsson og Egill saman. Kristinn semur gullfallega texta á spænsku við lög Egils; Tu duende og Acertijos.
Þessi plata Egils hefur verið í bígerð allar götur frá 2018, en nú lítur hún loksins dagsljósið og verður vonandi fagnað vel af þeim í það minnsta 350 einstaklingum sem gætu nælt sér í eintak af þessari einstöku afmælisútgáfu Egils. (en þ. 9. feb. 23 verður kappinn 70 ára).